Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 794  —  398. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta menntamálanefndar.



    Að mati 1. minni hluta er sjálfsagt og nauðsynlegt að kanna sameiningu skóla á háskólastigi eða nánari samvinnu þeirra á milli. 1. minni hluti telur það geta verið góðan kost að sameina t.d. umrædda skóla, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Grundvallaratriði er að áfram verði jafnrétti til náms í tæknigreinum, að sameiningin verði til að styrkja tækninám í landinu. Þá þarf að tryggja að hin nýja skólastofnun, sem er rekin að stærstum hluta fyrir opinbert fé, verði ekki rekin í hagnaðarskyni heldur með það markmið eitt að bjóða upp á fyrsta flokks nám. Markmiðið er að efla nám í tæknifræðum og fjölga tæknimenntuðu fólki og því verður að vanda vel til verka.
    Enginn vafi leikur á því að við sameiningu skóla sem þessara verða til mörg tækifæri en þau nýtast ekki nema þannig sé gengið frá að jafnrétti sé til náms og stofnunin búi við skýrt akademískt frelsi. Það er vissulega jákvætt að atvinnulífið komi með fjármuni inn í menntakerfið en það má ekki verða til þess að ganga gegn áðurtöldum markmiðum, heldur til að efla þau. 1. minni hluti leggur því til þær breytingar sem hér verða raktar á eftir.
    Það er ámælisvert hve skammur tími var gefinn til umfjöllunar um málið þar sem nefndin hélt aðeins tvo fundi um það og er það óviðunandi með öllu þegar lagðar eru til jafnmiklar breytingar á skólakerfinu og hér blasa við.
    Stefnuleysi stjórnvalda í málefnum háskólastigsins kemur skýrt fram í þessu máli öllu. Brýnt er að unnin verði heildstæð stefnumótun um málefni háskólastigsins þar sem tekið er á rekstrarformi skólanna, stjórnun, tekjuöflun og inntaki þeirra. Þessu hefur menntamálaráðherra ekki sinnt og kemur það alvarlega niður á allri umræðu um sameiningu skóla á háskólastigi enda kostirnir ekki verið kannaðir að neinu marki og er öll meðferð málsins af hálfu stjórnvalda verulega yfirborðskennd.
    Við vinnslu málsins lagði 1. minni hluti ríka áherslu á að rekstrarformi skólans verði breytt úr einkahlutafélagi í sjálfseignarstofnun. Engin rök hafa komið fram sem styðja einkahlutafélagsform um rekstur hins nýja skóla. Það form er sniðið að rekstri í hagnaðarskyni og hefur sjálfseignarformið utan um rekstur háskóla gefist vel. Það er almennt mælt með því af íslensku skólafólki sem hinu hentugasta utan um rekstur einkarekinna skólastofnana. Þá er það sannfæring 1. minni hluta að einkahlutafélagsformið ógni sjálfstæði og frelsi skólans, en sjálfseignarstofnunarformið tryggir það aftur á móti og eflir. 1. minni hluti flytur í tengslum við mál þetta breytingartillögu þar sem lögð er til breyting á 3. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997. Þar er lagt til að þeir einkaaðilar sem heimilt verður að stofna háskóla skuli vera sjálfseignarstofnanir. Þannig er sjálfstæði og akademískt frelsi einkarekinna háskóla tryggt.


Prentað upp.

    Rekstrarform hins sameinaða skóla breytist ekki í grundvallaratriðum þrátt fyrir ákvæði annarrar greinar stofnsáttmála Hástoðar um að allur hagnaður af rekstri skólans skuli ganga til hans að fullu. Áfram er um að ræða form þar sem eigendur geta keypt og selt hluti sína í félaginu að vild og engin trygging er fyrir því hverjir kunna að eignast skólann síðar meir. Ekkert virðist mæla gegn því rekstrarformi og 1. minni hluti ítrekar áskoranir til stofnenda skólans um að breyta rekstrarforminu úr einkahlutafélagsformi í sjálfseignarstofnun. Með því móti væri málið nær því þannig vaxið að hægt sé að veita því stuðning.
    Annað meginatriði við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík snýst um að ekki verði erfiðara að komast að í tækninámi en öðrum námsgreinum. 1. minni hluti telur að tækninám eigi eins og flest annað nám á háskólastigi að standa einnig til boða í opinberum skóla, t.d. Háskóla Íslands eða Iðnskólanum í Reykjavík, gegn hefðbundnum gjöldum en ekki einungis í einkareknum skóla gegn mun hærri skólagjöldum en opinberu skólarnir innheimta. Þar með tekur 1. minni hluti undir þær skoðanir sem komu fram í umsögn rektors Háskólans á Akureyri, Þorsteins Gunnarssonar, sem heldur því fram að með samþykkt þessa frumvarps þurfi stjórnvöld að endurskoða stefnu um skólagjöld þar sem sú mismunun sem hér hefur verið innleidd ógni stöðu opinberra íslenskra háskóla gagnvart erlendum háskólum. Þessi breyting fer fram án heildstæðrar umræðu um skólagjöld og fjármögnun háskólastigsins til framtíðar. Með þessu er verið að raska núverandi fyrirkomulagi og fella fleiri námsgreinar undir það að standa einungis til boða gegn háum gjöldum.
    Við vinnslu málsins telur 1. minni hluti að fram sé komið skuldbindandi loforð um að nám í frumgreinadeild verði áfram til staðar og að ekki verði innheimt skólagjöld við það enda um nám á framhaldsstigi að ræða. 1. minni hluti leggur mikla áherslu á að þetta gangi eftir og að jafnframt verði aðfaranám á borð við tæknistúdentsnám og frumgreinadeildarnám eflt við Iðnskólann í Reykjavík og/eða aðra verkmenntaskóla.
    Þá er mikilvægt að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum, t.d. í Iðnskólanum í Reykjavík eða Háskóla Íslands, til að fjölga valkostum og efla námið enn frekar. Það er mikilvægt að framboð á tækninámi verði ekki fátæklegra eftir sameininguna og renni að stórum hluta inn í verkfræðinámið heldur standi það áfram sem öflugt, sérstakt nám við hinn nýja skóla. Færsla líftæknigreinanna til Háskóla Íslands er fordæmi fyrir tækninámi við skólann og ber að mati 1. minni hluta að kanna kosti þess til hlítar að kenna tæknigreinarnar í Háskóla Íslands.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd lögðu ríka áherslu á að allir kostir til sameiningar yrðu skoðaðir. Sameining HR og THÍ, sameining THÍ og HÍ og sameining THÍ og Viðskiptaháskólans á Bifröst. Að slíkri könnun lokinni er best að taka afstöðu til þess hvaða sameining sé heppilegust og tryggi öflugt tækninám í landinu. Með þessum skóla virðist stefnt að háskólarekstri í tvenns konar formi: HÍ og HA annars vegar, THÍ/HR hins vegar. Þessir skólar virðast eiga að vera jafnvígir gagnvart fjármunum úr ríkissjóði en alveg er óljóst af hálfu ríkisstjórnarinnar hvort milli þeirra er einhver verkaskipting. HÍ/HA með skyldur, en nýi skólinn færri. HÍ/HA fái skráningargjöld, hinn talsverð skólagjöld að vild.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að fulltrúar nemenda og kennara eigi sæti í háskólaráði skólans en fyrir því er ekki gert ráð nú. Það er mikilvægt til að efla akademískt frelsi skólans að viðhorf samfélagsins innan hans, nemenda og kennara, eigi þar vísan stað. Einnig skal tekið undir kröfur BHM um að réttindi starfsmanna verði tryggð og gengið vandlega frá öllum lausum endum í því samhengi. Allur aðdragandi málsins er ámælisverður af hálfu stjórnvalda. Málið var aldrei kynnt fyrir Alþingi þegar ákveðið var að fara þessa leið heldur kom það fyrir bæði þing og þjóð í fjölmiðlum. Það kom síðan vanbúið og illa unnið til Alþingis þannig að þetta annars góða mál var orðið tortryggilegt og laskað. Með framgöngu sinni hafa menntamálayfirvöld unnið þessari sameiningu tjón sem ber að harma þar sem hún getur verið góður kostur til að efla tækninám sé vel að málum staðið bæði hvað varðar eignarformið og uppbyggingu tæknináms við aðra opinbera skóla um leið. Ef sú leið verður farin að tækninám verði einungis hægt að stunda í einkareknum skóla gegn skólagjöldum þarf að kanna vel hvort ráðast eigi í uppbyggingu tæknináms við opinbera skóla á borð við Iðnskólann eða Háskóla Íslands.

Alþingi, 14. febr. 2005.


Björgvin G. Sigurðsson,


frsm.


Mörður Árnason.


Katrín Júlíusdóttir.